Pistill

Kæru sveitungar og aðrir lesendur.
Nú líður að jólum og íbúar sveitarfélagsins eru í óða önn að skreyta hýbýli sín að innan sem utan og álít ég að sveitarfélagið okkar hafi aldrei verið eins fallega skreytt og nú og ber að þakka það.  Aðventan hefur verið einkar ánægjuleg með ýmsum atburðum sem róað hafa hugann í amstri dagsins.  Nú þegar þetta er skrifað líður að Þorláksmessuskötu á Miðgörðum og um hátíðarnar verða messur bæði í Laufási og Grenivík og síðan er hægt að bregða undir sig betri fætinum og skunda á Miðgarða.  Því ættu allir að finna sér eitthvað við sitt hæfi.

Það sem er helst að frétta af störfum sveitarstjórnar er að mikill tími hefur farið í að koma saman fjárhagsáætlun Grýtubakkahrepps fyrir árið 2005.  Í þau 18 ár sem ég hef tekið þátt í slíku starfi held ég að það hafi aldrei verið eins strembið.  Lítill afgangur er eftir rekstur þannig að víða er verið að skera niður og má segja að hnífurinn sé allsstaðar á lofti þar sem mögulegt er.  Eins tekur viðbyggingin við íþróttamiðstöðina verulega í fjárhagslega.

Kennaraverkfallið í haust fór víst ekki fram hjá neinum.  Þetta var erfiður tími fyrir nemendur og foreldra og alla þá sem málið varðaði og ekki síst fyrir kennarana sjálfa.  Mín skoðun er sú að á einhvern máta þarf að koma málum þannig fyrir að kennarar og svipaðar stéttir fari ekki í verkfall.  Ég álít að það sé heit ósk æði margra að það verði ekki sami háttur á hjá leikskólakennurum sem nú eru að fara með sinn samning í atkvæðagreiðslu.  Ég er ekki þar með að segja að þessar stéttir séu ofsaddar af launum sínum frekar en margar aðrar stéttir.

23. apríl nk. verður kosið um sameiningu sveitarfélaga.  Enn er ekki vitað um hvaða tillögu við kjósum en mér segir svo hugur að annað hvort verður ekki gerð tillaga um að við sameinumst eða að við verðum með í tillögu um að sameina allan Eyjafjörð.  Nýverið kom út skýrsla unnin af Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri varðandi kosti og galla þess að sameina allan Eyjafjörð.  Margt athyglisvert kemur þar fram, en skýrslan byggir m.a. á könnun sem gerð var meðal íbúa sveitarfélaganna 10 sem könnunin tekur til.

Að lokum óska ég öllum nær og fjær gleðilegra jóla og gæfuríks nýs árs með þakklæti fyrir allar gamlar og góðar stundir.

Með kveðju, Guðný Sverrisdóttir, sveitarstjóri