Pistill,

Það er ekki úr vegi að hefja pistilinn á því að spjalla um veðrið.  Annað hvort er það í ökkla eða eyra.  Í sumar kom varla dropi úr lofti þannig að tún brunnu og kartöflugrös skrælnuðu en síðustu daga er eins og allar flóðgáttir himinsins hafi opnast.  Hvort þessar öfgar stafa af gróðurhúsaáhrifum skal ósagt látið.

Þá er það mál málanna, verkfall grunnskólakennara.  Ég get tekið undir með menntamálaráðherra að einhverntímann þurfa þeir að semja og er þá ekki best að drífa í því.  Trúlega er málið samt ekki svona auðvelt og því miður óttast ég að verkfallið verði langt  og hafi slæmar afleiðingar í för með sér.  Ég kann ekki margar lausnir nema þá að skipta um menn í brúnni, því þegar búið er að kíta lengi minnkar oft trúnaðurinn, en samningar nást ekki nema traust ríki milli viðsemjenda.  Eitt er samt víst en það er að sveitarfélögin hafa ekki burði til að greiða hærri laun en launanefndin er búin að bjóða nú þegar.

Að allt öðru.  Þann 9. september sl. komu 44 Norðmenn frá vinabæ okkar í Stryn í heimsókn.  Vonandi hafa flestir haft nokkra ánægju af.  Að mínu mati  hefur 16 ára vinabæjarsamband haft heilmikla þýðingu fyrir íbúa Grýtubakkahrepps, ekki eingöngu sveitarstjórnarfólk heldur einnig skólabörn, kirkjukór og fleiri.

Nú er réttum lokið með sínum sjarma.  Ákveðin gleði fylgir réttum.  Verst er þó þegar féinu er beitt á vegina þegar heim er komið þar sem slíkt veldur mikilli hættu ekki síst nú þegar búast má við hálku í tíma og ótíma.  Þá er mál að linni. 

Með von um að kennaraverkfallið leysist sem fyrst.
Guðný Sverrisdóttir, sveitarstjóri