Pistill,

Góðir lesendur.

Eitt vinsælasta umræðuefni Íslendinga  er trúlega veðrið og hafa síðustu vikur ekki verið nein undantekning þar á enda full ástæða til, slík hefur veðurblíðan verið.  Eina sem hægt er að kvarta yfir eru þurrkar sem sjást vel á gráum túnum og lóðum í það minnsta hjá þeim sem ekki eru duglegir með úðarann úti í garði.

Nú er golfvöllurinn í Hvammi orðinn að veruleika og í upphafi með 6 holum sem vonandi verða  9 holur í framtíðinni.  Býsna margir hafa sótt völlinn heim nú þegar og miðað við fjölda félagsmanna í golfklúbbnum er mikill áhugi á golfsprikli hér um slóðir.

Síðastliðið fimmtudagskvöld voru töðugjöld í Laufási eins og sjá má á fréttasíðu og myndasafni grenivík.is.  Þetta er skemmtileg nýbreytni, þjappar fólki saman og eykur samkennd sem er mikilvæg í hverju byggðalagi.  Næstkomandi laugardagskvöld verður svo Grenivíkurgrill sem vonandi heppnast eins vel og í fyrra.  Því ætti enginn að þurfa að láta sér leiðast nema sá hinn sami hafi mikla löngun til.

Nú er sveitarstjórn í sínu 2ja mánaða sumarfríi þannig að fréttir af þeim vettvangi verður að bíða þar til næsti pistill verður skrifaður.

Njótið nú verðurblíðunnar!!!!

Guðný Sverrisdóttir, sveitarstjóri.