Pistill

Góðir sveitungar!

Nú þegar hallar sumri og ég lít yfir það sem liðið er finnst mér sumarið vera á margan hátt búið að vera gott og gjöfult. Ekkert lát er á veðurblíðunni og bera heyfengur og kartöfluuppskera merki þess.

Þótt heldur minni aðsókn hafi verið að skipulögðum ferðum nú í sumar sem boðið er upp á innan sveitarfélagsins hefur mikið verið um ferðamenn í byggðarlaginu í sumar. Aðsókn að Laufási var góð og með besta móti að Miðgörðum.

Margir velheppnaðir atburðir voru í sveitarfélaginu í sumar. Sjómannadagurinn var vel skipulagður, heyannadagurinn í Laufási tókst vel að vanda og aldrei hafa verið fleiri ættarmót á Grenivík en í sumar. Það sem stendur upp úr í huga mínum í dag er þó vel heppnað grill við Miðgarða 15. ágúst. sl. Eiga þeir sem að því stóðu heiður skilinn og góðar þakkir fyrir framtakið og vonandi fáum við álíka skemmtun að ári.

Eins og fólk sér sem á leið um þorpið í sumar er framkvæmdasumar hjá Grýtubakkahreppi. Lokið er við að malbika Lækjarvelli, parhús að Lækjarvöllum 2-4 er á lokastigi, lokið er við að breytingar á skrifstofu Grýtubakkahrepps, bókasafn Grýtubakkahrepps og grunnskóla hefur verið fært í miðrými í skóla og fleira mætti telja. Nú á haustdögum verður síðan farið í lagfæringar á Ægissíðu 21, settir ljósastaurar upp Kirkjustíg að skóla og hafist handa við að hanna nýbyggingu við skóla, íþróttahús og sundlaug. Síðast en ekki síst vil ég minna á gjörbreytta aðstöðu hjá slökkviliði og áhaldahúsi við flutning í Hafnargötu 1.

Mikil aðsókn er í leiguhúsnæði hjá Grýtubakkahreppi og margir á biðlista. Að mínu mati er það gleðilegt og fátt kætir mig meira en þegar ungt og duglegt fólk vill setjast að í sveitarfélaginu.

Hér með lýk ég fyrsta pistli mínum á heimasíðu Grýtubakkahrepps en í framtíðinni hyggst ég skrifa pistla á heimasíðuna minnst einu sinni í mánuði.

Guðný Sverrisdóttir, sveitarstjóri