Pistill, nóvember 2006

Þá er fyrsta stórhríð vetrarins afstaðin með öllu tilheyrandi. Við kvörtum og kveinum og ég velti því stundum fyrir mér þegar við kvörtum sem mest yfir veðrinu af hverju við búum á Íslandi.  Þegar upp er staðið þá er eitthvað notalegt við það þegar gnauðar á glugga ef allir eru í öruggri höfn. 

Mál málanna í dag er þjóðlendumálið.  Eins og alþjóð veit er fjármála- ráðherra fyrir hönd ríkisins búinn að gera kröfur um þjóðlendur á svæði 6 sem er að meginhluta til í Suður-Þingeyjarsýslu og inn á því svæði er Grýtubakkahreppur allur, utan við Kjálkann sunnan Fnjóskár. Það eru ansi margir gáttaðir á þessum kröfum. Fyrsta spurning í mínum huga er, hvað gengur ríkinu til með þessu?  Þegar lög um þjóðlendur voru sett á sínum tíma var meiningin að skera úr um eignarhald á ákveðnum svæðum á miðhálendinu en ekki að gera kröfu um land þar sem til eru meira en aldargamlar þinglýstar landamerkjalýsingar.  Því er þessi krafa óskiljanleg og ef þetta nær fram að ganga er þetta ein mesta eignarupptaka sem gerð hefur verið á Íslandi. Að mínu mati er eina vitið að ráðamenn þjóðarinnar dragi þessar kröfur til baka og biðjist afsökunar á þeim yfirgangi sem hafður er uppi.  Í það minnsta ætti að fresta öllum málaferlum þar til Mannréttindadómstóll Evrópu hefur úrskurðað í málinu, en deilum á Suðurlandi hefur verið vísað þangað.  Er þessi óskapnaður ef til vill ekki á höndum ráðamanna þjóðarinnar?  Er hann ef til vill sjálfsprottinn? Ef einhver getur gefið skýr svör um hvaðan þetta allt er sprottið væri það vel þegið. 

Nýir eigendur eru komnir að Pharmarctica ehf. Mikið er spurt um hvernig fyrirtækið gengur og er það vel að íbúar sveitarfélagsins hafi áhuga á því sem hér er verið að brasa.  Reksturinn hefur verið erfiður fram að þessu og fyrirtækið alltaf rekið með tapi.  Samt hefur séðst ljós í myrkrinu upp á síðkastið og vonandi koma nýir eigendur til með að opna nýjar markaðsleiðir. 

Grenivík í nóvember 2006, Guðný Sverrisdóttir.