Pistill, nóvember 2005

Þá eru sameiningarkosningarnar afstaðnar og allir vita hvernig þær fóru.  Ástæða er til að þakka íbúum Grýtubakkahrepps fyrir hversu vel þeir mættu á kjörstað og enginn ætti að velkjast í vafa um afstöðu íbúanna í Grýtubakkahreppi.  Niðurstaðan gaf skýr skilaboð til sveitarstjórnar og samfélagsins alls. 

Nú hefur íþróttamiðstöðin okkar verið tekin í notkun og verkinu er að mestu lokið, aðeins á eftir að hnýta örfáa enda.  Að mínu mati er þetta glæsileg bygging sem á vonandi eftir að nýtast íbúum Grýtubakkahrepps vel.  Mér finnst líkamsræktarstöðinni sérstaklega vel fyrir komið, þar er fallegt útsýni og aðstaða afar skemmtileg.  Reiknað er með að halda vígsluhátíð 13. nóvember nk.

Síðastliðið vor sagði Alfa Aradóttir upp starfi sínu við félagsmiðstöðina.  Nú hefur Anna Sigríður Jökulsdóttir verið ráðin forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar.  Anna sér einnig um verkefni Lýðheilsustöðvar ásamt fleiri verkefnum.

Verkefni Lýðheilsustöðvar er landsátak sem u.þ.b. 20 sveitarfélög á landinu taka þátt í.  Verkefnið felst í því að bæta líðan og heilbrigði barna og unglinga svo og annarra íbúa sveitarfélagsins á margvíslegan hátt (sjá nánar frétt á grenivik.is).

Töluvert hefur verið spurt eftir lóðum í fyrirhugaðri frístundabyggð ofan Grenivíkur.  Ekki er enn búið að skipuleggja svæðið að fullu en unnið er að því af fullum krafti.

Í síðasta pistli mínum vonaðist ég til að það kæmi sumarauki í september.  Ekki rættist sú ósk og enn lætur sumaraukinn á sér standa.  Nú er spurningin hvort nóvember komi með sumarglaðning!  

Grenivík, í nóvemer 2005.

Guðný Sverrisdóttir.