Pistill, maí 2008

Forstöðumannaskipti verða í tveimur stofnunum Grýtubakkahrepps á næstunni. Eins og fram kemur hér á heimasíðunni hefur Valdimar Víðisson sagt upp stöðu skólastjóra við Grenivíkurskóla og Ásta Fönn Flosadóttir verið ráðin í hans stað. Regína Ómarsdóttir leikskólastjóri hefur einnig sagt upp störfum en hún hefur verið í leyfi síðustu tvö ár. Það er alltaf söknuður þegar gott fólk lætur af störfum en það kemur maður í manns stað og ég vænti þess að eftirmenn þeirra verði farsælir í starfi.

Ekki er hægt að tala um atvinnuleysi í Grýtubakkahreppi sem betur fer. Undanfarið hafa fjölmargar stöður verið auglýstar lausar til umsóknar. Grenivíkurskóli auglýsir eftir grunnskólakennara í fullt starf næsta skólaár. Meðal kennslugreina er handmennt og almenn bekkjarkennsla. Leikskólinn Krummafótur auglýsir eftir leikskólastjóra og tveimur leikskólakennurum í fullt starf og Grenilundur, dvalar- og hjúkrunarheimili fyrir aldraða auglýsir eftir sjúkraliða eða almennum starfsmanni í 50-80% stöðu. Nánari upplýsingar um stöðurnar og umsóknarfrest er að finna hér á síðunni undir tilkynningar.     Nú er heiti potturinn nýi loksins að koma í hús en eins og gestir sundlaugarinnar hafa eflaust orðið varir við er gamli potturinn búinn að syngja sitt síðasta. Potturinn var pantaður 20. febrúar sl. og er það undravert að það skuli taka þrjá mánuði að kaupa einn slíkan. Við vonum svo að þeir Vélsmiðjumenn verði snöggir að stinga pottinum í samband.

Í apríl sl. var haldinn íbúafundur í Grýtubakkahreppi. Var hann vel sóttur eins og slíkir fundir eru tíðum. Ýmislegt var á dagskrá m.a. komu fulltrúar frá Norðurorku og fjölluðu um Reykjaveitu. Nú er búið að tengja um helming húsa í sveitarfélaginu sem möguleiki er á að tengja. Þar sem vatnið er enn innan við 60 gráðu heitt er gefinn 20% afsláttur af gjaldskrá hitaveitunnar. Þegar fleiri hús tengjast nær hitinn á vatninu vonandi að skríða upp fyrir 60 gráðurnar. Á fundinum var farið yfir ársreikning Grýtubakkahrepps 2007. Rekstrarniðurstaða samstæðu var hagnaður upp á kr. 12.617.000,-. Sveitarfélög víða um land hafa þessar vikurnar verið að birta niðurstöður ársreikninga sinna og virðist afkoman hafa nokkuð batnað. Sveitarstjórnarmenn lýsa gjarnan afkomunni þannig að þeir hafi tekið til í rekstrinum. Mín skoðun er að afkomubatinn stafi frekar af auknum tekjum vegna þenslu og veltuaukningar í þjóðfélaginu árið 2007 en hagræðingu.

Að lokum vil ég minna bændur á að sleppa ekki búfénaði sínum í heimalönd og afréttir fyrr en sveitastjórn hefur gefið leyfi til sleppingar. Samkvæmt fjallskilasamþykkt Héraðsnefndar Eyjafjarðar verða bændur að virða ákvörðun sveitarstjórnar.

Grenivík í maí 2008, Guðný Sverrisdóttir.