Pistill, júlí 2007

Trúlega hefur ekki farið fram hjá neinum að framkvæmdir við hitaveitu á Grenivík eru hafnar.  Verktaki er Icefox ehf. eða öðru nafni Stefán Þengilsson sem hefur þjónað okkur vel við snjómokstur undanfarna vetur. Ekki er annað að sjá en að verkið fari vel af stað en trúlega þurfa íbúar Grenivíkur að sýna örlítið umburðalyndi meðan á verkinu stendur.

Nú er niðurstöðu sjávarútvegsráðherra beðið varðandi niðurskurð á þorskvótanum. Slíkur niðurskurður kemur illa við staði eins og Grenivík.  Hverju það sætir að ekki er hægt að ná upp þorskstofninum er erfitt að segja til um.  Trúlega liggja margar ástæður þar að baki og því nauðsynlegt að efla rannsóknir Hafrannsóknarstofnunar til muna. Okkar byggðarlag hefur áður séð hann svartan og við verðum að trúa því að við komust yfir þessa erfiðleika nú sem fyrr.

Um síðustu helgi fór hópur knárra manna og kvenna út í Látur og reisti heilt hús á fjórum dögum.  Myndir af framkvæmdinni má finna hér á vefnum. Húsið virðist sóma sér vel í landslaginu á Látrum og finnst sumum það meira að segja aðeins líkjast gamla húsinu sem þar stóð.  Ferðafélagið Fjörðungur er eigandi hússins. Stjórn ferðafélagsins og öllum sjálfboðaliðunum sem fóru út í Látur er þakkað fyrir dugnað og útsjónarsemi við verkið.

Um síðustu helgi var opnaður húsdýragarður í Hléskógum.  Hann er afar skemmtilega upp settur og þar fjölmörg dýr að sjá en sérstök áhersla er lögð á að sýna ungviði.  Er virkileg ástæða til að leggja lykkju á leið sína og heimsækja Birnu og Begga í Hléskóga og skoða dýrin.  Einnig er þar fjölþættari ferðaþjónusta sem hægt er að fá upplýsingar um á vefsíðunni www.hleskogar.is

Frá 9. júlí til 20. júlí  (báðir dagar meðtaldir) verður skrifstofa Grýtubakkahrepps lokuð vegna sumarleyfa. Í neyðartilfellum er hægt að ná í sveitarstjóra í síma 864-4504.

Með von um að lokunin valdi ykkur ekki óþægindum.

Grenivík í júlí 2007, Guðný Sverrisdóttir.