Pistill, júlí 2006

Þá eru sveitarstjórnar-kosningarnar afstaðnar og ný sveitarstjórn tekin við.  Búið er að skipa í nefndir á vegum sveitarfélagsins.  Fjóla Stefánsdóttir var kosin oddviti og Jón Helgi Pétursson varaoddviti til eins árs.  Helstu nefndir eru fræðslu- og æskulýðsnefnd, félagsmála- og jafnréttisnefnd og landbúnaðarnefnd og eru nefndirnar að taka til starfa á næstu dögum. 

Eins og flestir vita í Grýtubakkahreppi er verið að selja Sjöfn EA 142.  Erfitt verður fyrir marga að sjá á eftir þessu farsæla skipi frá Grenivík.  Þó er mikils um vert að kvótinn verður eftir í byggðarlaginu en Frosti ehf. hefur keypt allan kvótann.  Hér með er eigendum Sjafnar þökkuð ánægjuleg samskipti í gegnum árin og þeim óskað velfarnaðar í framtíðinni.

Nú stendur yfir átak við eyðingu njóla í sveitarfélaginu.  Það er leiðinlegt þegar þetta fallega sveitarfélag fyllist af njóla og er hann ótrúlega fljótur að breiðast út og virðast njólafræin engan veginn átta sig á hvar landamerki eru.  Því skilar átakið ekki árangri nema sem flestir taki þátt í því.  Við eyðinguna er notað nýtt efni sem á að vera mikið skilvirkara en það sem áður hefur verið notað.  Vonast er til að sem flestir verði með þannig að við getum gert fallegt sveitarfélag enn fallegra.

Frá 10. til 21. júlí nk., að báðum dögum meðtöldum, verður skrifstofa Grýtubakkahrepps lokuð vegna sumarfría.  Vonast er til að það valdi ekki miklum óþægindum en erfitt er að koma fyrir öllum sumarfríum nema loka skrifstofunni um tíma eða ráða afleysingarfólk.

Grenivík, í júlí 2006 Guðný Sverrisdóttir