Pistill, febrúar 2012

Á fundi í sveitarstjórn Grýtubakkahrepps 23. janúar 2012 var 3ja ára áætlun Grýtubakkahrepps samþykkt. Fyrirhugaðar helstu framkvæmdir á árinu 2013 eru lagfæring á lóð á Grenilundi og nýbygging á leiguíbúðum eða iðngörðum. Á árinu 2014 er lagfæring á Gamla skóla stærsta framkvæmdin og 2015 busllaug við sundlaug og gangstígagerð. Tekið skal fram að hér er meira um stefnumótun að ræða en endanlega ákvörðun.

Á árinu 2012 er stærsta fjárfestingin að kaupa nýja dráttarvél. Búið er að festa kaup á John Deere dráttarvél og verður sú gamla seld. Þessi tegund er dýr en mjög vönduð og þar sem gamla John Deere dráttarvélin hefur þjónað okkur vel þótti öruggast að kaupa sömu tegund. Hafin er hönnun á gangi milli Krummafótar og Krummasels og verður Krummasel þá einkum notað fyrir starfsmannaaðstöðu. Við þessa framkvæmd  mun vonandi verða rýmra um starfsmenn og börn í leikskólanum í bili.
Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum fjölgaði íbúum Grýtubakkahrepps um 16 á síðasta ári og er það nær 5% fjölgun. Þetta er gleðiefni því ef okkur hefði haldið áfram að fækka hefði það einungis þýtt það að við hefðum ekki getað staðið undir þeirri þjónustu sem við viljum bjóða upp á í sveitarfélaginu. Fjölgunin kemur til m.a. af því að atvinnuástand hefur verið gott og sú grunnþjónusta sem hér er veitt stendur undir væntingum. Staðgreiðsla á árinu 2011 hækkaði meira en áætlað var sem hlýtur að stafa af góðu atvinnuástandi.
Nú er undirrituð að drífa sig í hið árlega frí sitt og verður hún fjarverandi frá 21. febrúar til 13. mars nk.  Sigrún og Jón Helgi munu leysa úr þeim málum sem upp kunna að koma í fjarveru sveitarstjóra.
Grenivík í febrúar 2012, Guðný Sverrisdóttir.