Pistill, desember 2012

Fjárhagsáætlun Grýtubakkahrepps var samþykkt 3. desember sl. Rekstrarafgangur af samstæðunni var kr. 3.146.000,-. Helstu framkvæmdir er bygging parhúss að Höfðagötu 1 á Grenivík, lagfæring á lóðinni við Grenilund, nýtt undirlag á leiksvæði á leikskólanum Krummafæti, snjóplógur og malarvagn í áhaldahús og yfirbreiðsla á sundlaug. Rekstrargjöld þessa árs fara trúlega eitthvað fram úr fjárhagsáætlun. Kemur það aðallega til af miklum snjómokstri síðustu vikurnar.  Rekstrartekjur ættu einnig að vera hærri og munar þar mest um staðgreiðslutekjur en þær stefna í að verða 20% hærri en árið 2011. Í áætlun var reiknað með 10% hækkun og þótti það  bjartsýni þannig að staðgreiðsla kemur til með að fara langt fram úr öllum væntingum okkar.

 

Á árinu 2013 stefnir í miklar byggingarframkvæmdir í sveitarfélaginu. Það sem vitað er um í dag er að ljúka þarf við leikskólabygginguna, viðbygging við Darra var komin vel af stað þegar snjóalög stoppuðu framkvæmdir, byggt verður parhús eins og áður var getið um og búið er að ákveða viðbyggingu við Pharmarctica en húsakostur þar er verulega farinn að hamla starfseminni. Alltaf er gaman að hefja byggingarframkvæmdir en gleðilegast er þó að þær stafa af  góðum árangri í rekstri verksmiðjunnar á árinu. Trúlega hefur borist inn um bréfalúuna hjá íbúum sveitarfélagsins bæklingur um strætóferðir um Norður-og Norðausturland. Það olli okkur miklum vonbrigðum að í þetta skipti er ekki boðið upp á almenningssamgöngur til Grenivíkur. Ljósi punkturinn er samt sá að á næstu misserum kemur væntanlega þessi þjónusta og við verðum því bara að vona að biðin verði ekki mjög löng. Ekki er ótrúlegt að byrjað verði með svokallaða pöntunarþjónustu, þ.e. að ef ekki er látið vita að farþegar vilji komast með þá kemur enginn bíll. Nokkur reynsla er komin á almenningssamgöngur á Norðurlandi Vestra og Suðurlandi og ganga þær afar vel á báðum stöðum. Nú gengur jólahátíðin í garð og er það ósk undirritaðrar að allir, nær og fjær, megi eiga gleðileg jól og farsælt nýtt ár.

Grenivík í desember 2012, Guðný Sverrisdóttir