Pistill, desember 2010

Þá er enn eitt árið að líða í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka. Vonandi hefur það verið flestum gjöfult þótt góðærið láti enn standa á sér eða er það svo? Góð aflabrögð hafa verið á árinu og hátt verð á afurðum, góð spretta á því sem landið gefur. Einhverntímann hefði það talist góðæri. Er það hallæri, þegar mannskepnan hefur klúðrað fjármálum ríkisins með græðgi? Sá förunautur hefur  aldrei verið til góðs.

Fjárhagsáætlun Grýtubakkahrepps fyrir 2011 var afgreidd í sveitarstjórn Grýtubakkahrepps 20. desember sl. Er reiknað með að A hlutinn verði gerður upp með 236 þús. í hagnað en samstæðan með 985 þús. í tap. Helstu framkvæmdir á árinu eru malbikun á Höfðagötu, Sælandi, Lækjarvöllum og stíg að leikskóla.  Einnig á að lagfæra sundlaug, gera endurbætur á tjaldstæði og ljúka framkvæmdum við vatnsveitu. Er reiknað með framkvæmdum upp á 32,6 millj. kr. Gengið verður á handbært fé að upphæð 17,9 millj. kr. en engin ný lán verða tekin á árinu.
Nú um áramótin verður tekin upp ný tilhögun á sorphirðu í Grýtubakkahreppi og verður hið nýja kerfi tekið í notkun í janúarmánuði nk. Á nýju ári verður allt sorp flutt í Stekkjarvík í Húnavatnssýslu en þar er nýi urðunarstaðurinn okkar. Breytingin fellst m.a. í eftirfarandi:
Tekið verður upp tveggja tunnu kerfi í öllu sveitarfélaginu, þ.e. flokkað verður í lífrænt sorp, endurvinnanlegt sorp og almennt sorp. (Lífræna sorpið verður í fötu innan í almennu tunnunni). Nauðsynlegt er að flokka lífrænt frá, einhverjir jarðgera heima en hjá öðrum verður lífrænn úrgangur fluttur í Moltu í Eyjafjarðarsveit. Endurvinnanlega sorpið verður losað 1x í mánuði en annað sorp 2x í mánuði. Starfsmenn áhaldahúss hætta að sækja sorpið en í stað þess kemur gámabíll og verða því ekki lengur ruslapokar í tunnunum.  Í byrjun janúar verðu haldinn almennur íbúafundur þar sem hið nýja fyrirkomulag verður kynnt.
Með von um gleðilegt komandi  ár með þakklæti fyrir árið sem er að líða.
Grenivík í desember 2010 Guðný Sverrisdóttir.