Pistill, apríl 2014

Á fundi sveitarstjórnar þann 7. apríl sl. var ársreikningur Grýtubakkahrepps fyrir árið 2013 tekin til seinni umræðu. Ágætur rekstrarafgangur var hjá sveitarfélaginu eða af A hluta fyrirtækjum kr.26.751.000,- og af samstæðunni kr. 24.330.000,-. Veltufé frá rekstri var hjá A hlutanum kr. 49.713.000,- og af samstæðunni kr. 56.005.000,-, en veltufé er það fjármagn sem er til framkvæmda og afborgunar skulda. Helstu framkvæmdir hjá A hlutanum var bygging tengibyggingar við leikskólann og hjá B hlutanum bygging parhúss að Höfðagötu 1 á Grenivík.
Eins og flestir Grenvíkingar hafa orðið varir við þá hefur verið mikill vatnsskortur á Grenivík síðustu vikur og mánuði. Stafar það af því að eldri lindir menguðust og nýju lindirnar gáfu aðeins helming á við það sem þær gefa yfir sumarið. Stafar það af lélegum vatnsbúskap á Norðurlandi. T.d hjá Norðurorku er yfirleitt 70% af kalda vatninu úr lindum og 30% úr borholum en síðustu vikur hefur þetta snúist við, 70% úr borholum og 30% úr lindum. Ekki er alveg hægt að skilja þenna búskap þar sem óhemju úrkoma hefur fallið til jarðar nú í vetur. Eitt er víst, en það er að við þurfum að grípa til einhverra aðgerða og komum við til með að fá sérfræðinga frá Ísor til að aðstoða okkur við að finna lausnina.
Framkvæmdir við Túngötu 3 (Jónsabúð) ganga samkvæmt áætlun. Ekki er annað að sjá en að syðri hlutinn , það er búðin og veitingarsalan verði til í lok maí. Ekkert hefur komið upp á sem ætti að tefja verkið eða hleypa kostnaði upp. Nú er þetta allt að taka á sig mynd og lofar góðu.
Margir ánægjulegir atburðir hafa verið í sveitarfélaginu upp á síðkastið. Föstugangan á föstudaginn langa var vel sótt og ánægjuleg svo ég tali nú ekki um athöfnin í kirkjunni á eftir. Notarleg stund var í kirkjunni á páskadagsmorgun og morgunverður í boði kirkjukórsins á eftir. Útivistardagur í Grenivíkurfjalli annan dag páska var einnig vel sóttur og skemmtilegur. Allir þessir atburðir gera þetta samfélag að því sem það er. Kærar þakkir.
Síðasta dag aprílmánaðar var haldið íbúaþing í Grýtubakkahreppi. Var það vel sótt að vanda. M.a. talaði Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson frá AFE um atvinnumál og Þórarinn Ingi Pétursson um þjónustu í dreifbýli. Sveitarstjórn hefur kappkostað að halda slíkt þing einu sinni á ári til að upplýsa íbúana um stöðu sveitarfélagsins og hvað er efst á baugi hverju sinni.
Með von um að allir eigi gleðilegt sumar.
Grenivík í apríl 2014,
Guðný Sverrisdóttir.