Pistill, apríl 2012

 vikunni hélt sveitarstjórn Grýtubakkahrepps almennan íbúafund á Grenivík.  Mættir voru milli 40 og 50 manns. Er það nokkuð góð mæting miðað við fjölda íbúa í sveitarfélaginu þótt alltaf væri gaman að sjá fleiri. Að mínu  mati stóð upp úr  umfjöllun um fiskveiðistjórnunarfrumvörpin og hversu gífurlegar afleiðingar frumvörpin hafa á útgerðir í sveitarfélaginu ef frumvörpin verða að lögum.

Sveitarfélagið fékk KPMG til að gera úttekt á áhrifum frumvarpanna á útgerðirnar og sveitarfélagið. Ekki komu þó fram óbein áhrif eins og lækkandi útsvarstekjur og minnkandi umsvif  í sveitarfélaginu á margan hátt.  Ekki er gott að skilja hvað stjórnvöldum gengur til með þessum frumvörpum. Ef við horfum okkur nær þá eru hér í sveitarfélaginu  tvær útgerðir sem  eiga  megnið af aflaheimildunum.  Önnur er aldargömul og hin 65 ára. Hafa báðar þessar útgerðir verið reknar með mikilli útsjónarsemi alla tíð og á síðustu árum verið að kaupa aflaheimildir í stað þeirra sem tekið hefur verið af þeim á síðustu árum vegna minnkandi kvóta. Slík kaup taka í.  Við vitum að alltaf er misjafn sauður í mörgu fé og þótt einhverjir séu innan greinarinnar sem hafa sólundað sínum rekstri þá má ekki alhæfa það yfir alla línuna.

Á síðasta fundi sveitarstjórnar Grýtubakkahrepps var ársreikningur sveitarfélagsins afgreiddur. Er samstæðan gerð upp með tæplega 6 milljónakr. hagnaði. Er það nokkuð meira en áætlun gerði ráð fyrir og kemur það einkum til af tvennu. Meira fékkst úr Jöfnunarsjóði en reiknað var með og lífeyrisskuldbindingar sveitarfélagsins lækkuðu í stað þess að hækka eins og gert var ráð fyrir. Veltufé frá rekstri var um 31 millj.kr. en það er sú upphæð sem sveitarfélagið hefur til framkvæmda og afborgana lána ef ekki er gengið á handbært fé eða tekin ný lán. Þetta er viðunandi afkoma ekki síst þegar haft er í huga að það er ekki markmið í rekstri sveitarfélaga að skila sem mestum hagnaði heldur að nýta þá fjármuni sem best sem sveitarfélagið hefur til ráðstöfunar. Enn heldur okkur áfram að fjölga í sveitarfélaginu en 1. des. sl. vorum við 351 og hafði okkur þá fjölgað um 17 frá fyrra ári. Eftir 1. ársfjórðung í ár vorum við orðin 360 og enn eru einhverjir eftir í pípunum sem eiga eftir að flytja lögheimili sín til okkar. Nú er svo komið að húsnæði fer að verða af skornum skammti. Við stöndum því frammi fyrir því hvort sveitarfélagið láti byggja eitt parhús til viðbótar en það viljum við þó helst ekki gera nema að geta selt eitthvað af þeim íbúðum sem við eigum fyrir.
Með von um gleðilegt sumar.
Grenivík í apríl 2012, Guðný Sverrisdóttir.