Pistill, apríl 2010

Á fundi sveitarstjórnar Grýtubakkahrepps 12. apríl sl. var ársreikningur Grýtubakkahrepps fyrir árið 2009 samþykktur. Helstu niðurstöðutölur eru þessar:  Hagnaður af A hluta sveitarsjóðs var 12,761 millj.kr. og af samstæðunni 15,160 millj. kr. Er þetta töluvert betri niðurstaða en reiknað var með í áætlun 2009. Kemur það einkum til af hærri útsvarstekjum en reiknað var með og má það ekki síst þakka þeim sjómönnum sem hér eiga lögheimili.

Eigið fé A hluta sveitarsjóðs eru 366 millj. kr. og samstæðunnar 325 millj. kr. Langtímaskuldir A hluta sveitarsjóðs eru 103 millj. kr. og samstæðunnar 219 millj. kr. Veltufjárhlutfall A sjóðs er 2,17 og samstæðunnar 1,93. Eigiðfjárhlutfall A sjóðs er 0,71 og samstæðunnar 0,55.
Miðvikudagskvöldið 28. apríl sl. var haldið íbúaþing á Grenivík. Mættu um 60 manns á þingið. Á þinginu var m.a. rætt um málefni Sæness og sorpmál. Í dag eru um 70 heimili með endurvinnslutunnur en betur má ef duga skal þar sem kostnaður við förgun sorps mun stórhækka þegar flytja þarf sorpið vestur í Húnavatnssýslur. Einnig þarf  að huga að flokkun á lífrænum úrgangi. Nú þegar  hefur þónokkur árangur náðst þar sem magnið af heimilissorpi sem fór til urðunar 2009 var 22% minna en 2008.
Nú líður að sveitarstjórnarkosningum en þær fara fram 29. maí nk. Það er von mín að kjörsókn verði góð, þannig sýna íbúar sveitarfélagsins í verki áhuga sinn á sveitarfélaginu. 

Grenivík, í apríl 2010. Guðný Sverrisdóttir.