Pistill, ágúst 2013

Tíunda Grenivíkurgleðin var haldin fyrir skömmu. Hún var vel heppnuð að vanda. Skemmtikraftar voru með besta móti og að öðrum ólöstuðum var rúsínan í pylsuendanum Eyþór Ingi, en hann vakti hrifningu hjá ungum sem öldnum. Kærar þakkir fyrir gott framtak sem Grenivíkurgleðin er.

Framkvæmdir hjá Grýtubakkahreppi hafa gengið samkvæmt áætlun. Framkvæmdum við leikskóla er að mestu lokið. Þar er komið margumtalað undirlag undir leiktækin þannig að nú gleðjast bæði börn sem fullorðnir. Vonandi verður sett svipað undirlag undir leiktæki uppi við  grunnskóla. Lagfæringu á lóðinni á Grenilundi  er nú lokið. Steyptar voru stéttar framan við húsið og settar hitalagnir og hluti af lóð þakin upp á nýtt. Var þetta mikil bót fyrir íbúa Grenilundar og  flikkar upp á þetta fallega hús sem Grenilundur er. Nýbyggingin að Höfðagötu 1 gengur samkvæmt áætlun og reiknað er með og íbúðirnar verði til 15. desember nk.

Nú þegar þetta er skrifað eru fjárbændur í Grýtubakkahreppi  að leggja af stað í göngu, rúmri viku fyrr en áætlað var. Kemur það til af vondri veðurspá fyrir næstu helgi. Eðlilegt er að bændur séu hvekktir  frá því í fyrra en allir muna eftir þeim hörmungum sem þá gengu yfir Norðurland. Það er erfitt að taka slíka ákvörðun,  að drífa sig af stað í göngur eða treysta á guð og lukkuna um að allt reddist  sem er svo sem  háttur okkar Íslendinga. Trúlega mundi bændur naga sig í handabökin ef þeir sætu heima og spáin gengi eftir, ekki síst þar sem Veðurstofan ætlaði ekki að láta taka sig í bólinu eins og í fyrra.

Með von um að göngur og réttir gangi vel. Grenivík í ágúst 2013, Guðný Sverrisdóttir