Pistill, ágúst 2011

Þegar sumri hallar er ekki úr vegi að líta yfir farinn veg og átta sig á hvernig sumarmánuðirnir hafa farið með okkur. Nær tveggja mánaða kuldakast hrjáði Norðlendinga frá miðjum maí fram í miðjan júlí. Slíkt hefur áhrif á ansi margt þótt í fljótheitum mætti ætla að ástandið yrði enn verra. Ótrúlega góður heyfengur er víða í sveitinni og aldrei að vita nema kartöfluuppskera verði viðunandi ef sumarauki hefst nú á höfuðdaginn. 

Ferðaþjónustan hefur liðið fyrir kuldann þar sem ekki sást innlendur ferðamaður fyrr en í júlí og upp úr verslunarmannahelginni fór þeim fækkandi þannig að ferðamannastraumurinn stóð ekki lengi yfir þetta sumarið.
Fagna ber að náðst hafa kjarasamningar við öll félög sem starfsmenn Grýtubakkahrepps eru aðilar að og það án verkfalla. Þótt flestum hafi ekki veitt af slíkri launahækkun, sem vonandi fer ekki beint út í verðlagið, er þetta nokkuð stór pakki fyrir sveitarfélagið en lauslega reiknað kostar launahækkunin sveitarfélagið 4-5 milljónir á þessu ári og eru þeir peningar ekki til, ekki síst með tilliti til þess að staðgreiðslan árið 2011 hefur verið lægri en ráð var fyrir gert. Þá er aðeins tvennt til ráða, annaðhvort að auka tekjur með frekari álögum á íbúana eða skerða þjónustuna. Hvorugt er gott en á einhvern hátt þarf að fylla í þetta gat.
Eins og menn vita var tekið upp nýtt fyrirkomulag á sorphirði fyrr á árinu. Hefur framvinda þess verið nokkuð góð. Til að ljúka verkinu þarf að gera nýjan gámavöll sem aðeins verður opinn fáa klst. í viku. Verið er að hanna slíkan völl en þar sem sveitarfélagið hefur ekki efni á að sjá um framkvæmdina er nú verið að skoða aðrar útfærslur.
Framkvæmdum sumarsins er að mestu lokið. Malbikun er lokið nema aukaverk sem klárast á næstu dögum, nýtt og glæsilegt þjónustuhús á tjaldstæðinu var tekið í notkun í sumar og túnflatirnar þar eru að gróa upp þannig að þær verða vonandi í góðu lagi á næsta ári. Framkvæmdum við vatnsveitu er lokið og endurbótum  á sundlaug er einnig að mestu lokið. Þetta eru miklar og dýrar framkvæmdir og við þurfum að átta okkur á að þetta eru meiri framkvæmdir en að meðaltali er hægt að framkvæma á ári.
Grenivík í ágúst 2011, Guðný Sverrisdóttir.