Pistill, ágúst 2010

Nú líður að því að skóli hefjist og vonandi koma allir kátir og glaðir undan sumrinu. Tveir nýir kennarar hafa verið ráðnir við Grenivíkurskóla eða þeir Þorgeir Finnsson og Stefán Guðnason en Stefán kemur til með að kenna íþróttir.  Eru þeir báðir boðnir velkomnir til starfa. Guðrún Árnadóttir og Edda Björnsdóttir eru í barnsburðarleyfi og Edda Línberg er farin til annarra starfa. Í sumar hafa staðið yfir miklar breytingar á neðri hæð grunnskólans og er þeim að ljúka um þessar mundir. Komin er glæsileg aðstaða fyrir félagsmiðstöð og tónmennt en hvort tveggja hefur verið á hrakhólum síðustu ár. Þorgeir Finnsson verður með félagsmiðstöðina í vetur.
Grenivíkurgleðin gekk vel að vanda og var jafn glæsileg og undanfarin ár. Veðurguðirnir stríddu mótsgestum svolítið með rigningu en þegar kvöldverður átti að hefjast á laugardagskvöldinu stytti upp og gerði blíðskaparveður.  Aðstandendum gleðinnar eru færðar innilegar þakkir fyrir framtakið.
Eins og íbúar Grenivíkur hafa orðið varir við hefur vatnsskortur látið á sér kræla í sumar. Undanfarnar vikur hefur verið skoðað hvaða úrbætur koma til greina. Enn er ekki búið að taka endanlega ákvörðun en þrjár leiðir koma helst til greina. Þær eru að bora í Hornhúsadal, semja um afnot af holu í Hvammi eða útbúa vatnsból í Grenivíkurfjalli. Innan fárra daga ættum við að hafa forsendur til að taka endanlega ákvörðun. 

Grenivík í ágúst 2010, Guðný Sverrisdóttir.