Pistill 20. febrúar 2015

Nýverið var í fréttum að fyrirtækið Promens hefði verið selt úr landi.  Sögunni fylgdi að ekki væru fyrirhugaðar breytingar á starfsemi þess hér handan við fjörðinn, þar er enda mikið í húfi, einnig löng og merkileg saga.  Ekki er þó laust við að ónotatilfinningu setji að manni við þessar fréttir.  Enda er oft lítið hald í fögrum yfirlýsingum þegar ákvarðanatakan hefur færst á brott og hagræðing er orð sem upphefur allar fyrri ákvarðanir þegar á reynir.

Ef seljandinn væri einkaaðili gæti maður lítið sagt.  Seljendur í þessu tilviki eru hins vegar Framtaksjóður lífeyrissjóðanna og Landsbankinn, ofan í kaupið er Seðlabanka Íslands og gjaldeyrishöftum stjórnvalda kennt um.  Allir framangreindir aðilar mega teljast fulltrúar almennings á Íslandi beint og óbeint.  Þeir ættu því ætíð að hafa langtímahagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi og taka fram yfir stundargróða.  Ég verð að segja að mér er mjög til efs að svo hafi verið nú.

Þetta er ekki fyrsta fyrirtækið sem hverfur úr landi eftir langa sögu á Íslandi, að hluta til eða öllu leyti.  Að glata sjálfsforræði er illt og geymir sagan mörg dæmi um hrakfarir byggðarlaga sem misst hafa tök á atvinnulífi.  Lengi hefur kvótakerfið verið blóraböggull, eins og gjaldeyrishöftin eru í þessu máli.  Hvorki lög um fiskveiðar né lög um gjaldeyrishöft taka þó ákvarðanir sjálf.  Ekki heldur bankar eða lífeyrissjóðir.  Ákvarðanir eru alltaf teknar af mönnum, í þessu tilviki mönnum sem trúað hefur verið fyrir því að gæta hagsmuna okkar allra.  Ákvarðanir starfsmanna og stjórnenda í fjármálageiranum sem leiða til mikils hagnaðar um stund, verða gjarna til þess að þeir sem um höndla fá sjálfir bónus eða annan beinan fjárhagslegan ábata.  Þeir geta svo horfið stoltir á braut til nýrra verkefna.  Gildir þá einu hvort ákvarðanir þeirra leiða síðar til ófarnaðar fólks, byggðarlaga eða skaða jafnvel hagsmuni landsmanna allra til lengri tíma.

Því er eðlilegt að spurt sé; Hvaða hagsmunir og hverra, til lengri eða skemmri tíma réðu hér niðurstöðu máls?  Var Framtakssjóður lífeyrissjóðanna stofnaður til að efla atvinnulíf á Íslandi til lengri tíma, eða til að kaupa og selja hlutabréf með hámarksgróða til skamms tíma?