Pistill 14. maí 2015

Ég hef á liðnum mánuðum setið allmarga fundi þar sem millilandaflug til Íslands hefur borið á góma og þá sérstaklega til Akureyrar og Egilsstaða.  Þorvaldur Lúðvík hjá Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar hefur farið fremstur í flokki og barist af hörku fyrir annarri gátt inn í landið.  Ætti að vera öllum nokkuð augljóst það misvægi sem af hlýst að hin mikla fjölgun ferðamanna nái ekki að dreifast betur.  Álag verður of mikið á náttúru Suður- og Vesturlands meðan náttúruperlur fyrir norðan og austan eru vannýttar.  Þetta er mikið hagsmunamál fyrir ferðaþjónustuna á þeim svæðum, sem á köflum berst í bökkum á meðan rjóminn flýtur yfir öll borð fyrir sunnan.

Með tímanum fær maður gleggri og gleggri mynd af málinu, eftir því sem maður hlustar á fleiri og kemur víðar.  Hér á eftir er mín greining á stöðunni, ég er ekki sérfræðingur í flugmálum en svona horfir þetta við mér í dag.

Icelandair sem er okkar risi á þessum markaði byggir allt sitt kerfi á tengingum í einn punkt í Keflavík og er því afar ólíklegt að þeir fari að fljúga til Akureyrar eða Egilsstaða á næstu árum.

Veit þó ekki hvort þeir hafa skoðað möguleikann á að fella Akureyri inn í þetta mynstur, t.d. að bjóða ferðir frá Þýskalandi beint til Akureyrar, síðan flug áfram (með þotum) frá Akureyri til Keflavíkur og öfugt.  Með þessu gæfist Þjóðverjum (eða öðrum eftir atvikum) kostur á að fljúga beint til Norðurlands og Norðlendingum gæfist kostur á að fljúga beint til Þýskalands og einnig að fljúga með þotu á 20 mín. til Keflavíkur og þaðan í allar áttir.  Allir sem kæmu til Kelavíkur gætu þá líka tekið þotuflug  áfram til Akureyrar.  Kannski er þetta of flókið í framkvæmd en gaman væri að vita hvort prófað hefur verið að stilla upp svona leiðakerfi.

Sama gildir um WOW og Icelandair, þeir eru farnir að nota Keflavík sem skiptistöð og því ekki neinar líkur á að þeir vilji frekar leggja lykkju norður á leiðir sínar.

Ef við lítum til erlendra flugfélaga blasir við að þegar hefja skal flug til Íslands, sem er afar fámennur markaður, eru yfirgnæfandi rök sem standa til þess að byrja á Keflavík.  Bæði er Reykjavík þekktasta nafnið, fjölmennasta svæðið og tengiflugsmöguleikar í Keflavík til Ameríku (og Evrópu) hljóta að vigta þungt.  Þeir víkka sölumöguleika svo mikið að ekki verður auðveldlega framhjá gengið.  Hins vegar ættu á einhverjum tíma að opnast möguleikar á að flugfélög eins og Easy Jet bæti við öðrum áfangastað á Íslandi þegar þeir hafa náð ákveðinni stærð í Keflavík.  Kannski er þetta raunhæfasti möguleikinn á beinu flugi til Akureyrar og/eða Egilsstaða í nánustu framtíð.

Hinn hluti umræðunnar snýr síðan að ástandi flugvallanna á Akureyri og Egilsstöðum og opinberri stefnu.  Þar kemur ábyrgð stjórnvalda til sögunnar og það er með ólíkindum hve illa hefur gengið að gera það sem þarf til að þessir vellir séu í fullkomnu ástandi til að taka við þeirri umferð sem kann að bjóðast.  Merkilegt hefur verið að hlusta á bæði fyrrverandi og núverandi stjórnarþingmenn beinlínis kenna Isavia um að vilja ekki byggja þessa flugvelli upp.  Isavia er í eigu ríkisins og heyrir undir það beint.  Stjórnvöld setja Isavia umgjörð, lög og reglur til að vinna eftir.  Hér stendur því alfarið upp á stjórnvöld, þ.e. ríkistjórn, að stýra því hvernig Isavia vinnur og þar með uppbyggingu flugvalla.  Ef Isavia fer síðan ekki að þeirri stefnu og þeim reglum sem stjórnvöld setja þarf einfaldlega að skipta þar um stjórnendur.

Það var því nokkuð sérkennilegt að koma á dögunum í heimsókn til Isavia í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og fá útlistun á þeirra plönum um uppbyggingu til næstu 25 ára.  Ekki kom á óvart að gert er ráð fyrir gríðarlegri aukningu ferðmamanna með flugi áfram.  Við því á að bregðast með stórfelldri uppbyggingu og eru áætlanir um a.m.k. tvöföldun á aðstöðu í Keflavík fyrir flugvélar og farþega.  Hitt kom meira á óvart að þrátt fyrir hina miklu aukningu ferðamanna til Íslands sem við blasir, voru engar áætlanir kynntar um uppbyggingu á Akureyri eða Egilsstöðum.  Ekki frekar en þessi vellir væru í Japan en ekki á Íslandi og á vegum Isavia.  Til að undirstrika þessa stefnu var kynningin sett fram af starfsmönnum Isavia, Flugstöðvarinnar og Keflavíkurflugvallar sameiginlega.

Það er því orðið alveg klárt í mínum huga að í framkvæmd er það opinber stefna Íslenskra stjórnvalda að næstu 25 árin skuli ferðamenn fljúga til Keflavíkur ætli þeir sér að koma til Íslands.  Þetta rímar raunar alveg við hve illa gengur að fá fjármagn til að nýta útgröft úr Vaðlaheiðargöngum í þágu Akureyrarflugvallar, svo augljóslega sem það verkefni ætti þó að vera hagkæmt og skynsamlegt.  Maður hefði a.m.k. haldið að ekki veitti af að styrkja varavellina vegna vaxandi umferðar um Keflavík, með stækkun flughlaða.

Það merkilegasta finnst mér þó að stjórnvöldum skuli sýnast það vænlegast fyrir landið í heild, að 2 milljónir, 4 milljónir eða 8 milljónir ferðamanna lendi allar á Reykjanesinu.  Að það sé einfaldlega ekki valkostur að reyna að byggja undir jafnari dreifingu ferðamanna um landið.

Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri.