Kveðja frá íbúum Grýtubakkahrepps

Látinn er séra Pétur Þórarinsson sóknarprestur í Laufási. Árið 1991 fluttu Pétur og Inga með fjölskyldu sína í Laufás þegar Pétur gerðist sóknarprestur okkar í Grýtubakkahreppi.  Það var mikið lán fyrir okkur að fá Pétur og fjölskyldu í Laufás.  Hann var náttúrubarn og áhugamál hans voru á margan hátt þau sömu og íbúanna.  Náttúrubarnið undi hag sínum vel í Laufási og að hans tilstuðlan hefur staðurinn byggst upp. Fáir staðir eru fegurri en Laufás, fegurðin þar er engu lík.

Sauðfjárræktin átti mikil ítök í huga Péturs og hann var alla tíð virkur í búskapnum hjá Þórarni syni sínum. Ný dráttarvél var keypt fyrir nokkrum vikum, sérútbúin fyrir Pétur svo hann gæti haldið áfram að taka þátt í búskapnum. Ekki átti að láta deigan síga.  Forðum kom Pétur á fótboltaleiki á Grenivík og mátti þá bæði sjá og heyra hann láta til sín taka á hliðarlínunni. Hann var mikill keppnismaður og hafði oft orð á því að hann hefði þótt helst til grófur meðan hann sjálfur hafði heilsu til að spila inn á vellinum.  Já, Pétur tók þátt í gleði okkar og sorgum og var góður félagi og vinur.  Á gleðistundum var hann hrókur alls fagnaðar.  Ekki var Pétur búinn að vera lengi í Laufási þegar veikindi hans ágerðust. Sykursýkin gerðist æ áleitnari og þrátt fyrir nýjustu tækni læknavísindanna áttu þau ekki ráð sem dugðu.  Þótt við vitum að Pétur ætti sínar erfiðu stundir þá var veikindunum tekið með miklu æðruleysi.  Hann hafði mikla lífslöngun og við vitum að hann hugsaði það eitt að lifa áfram og láta veikindin ekki buga sig.  Hann ætlaði að aka á nýju dráttarvélinni á Laufástúnunum í sumar. Í raun getum við þakkað fyrir að hafa fengið að hafa Pétur þó þetta lengi hjá okkur og það er ekki síst Ingu að þakka.  Hún stóð alltaf eins og klettur við hlið hans hvað sem á dundi.  Og þar var ekki verið að mála dekkri mynd en þurfti.  Hvert samfélag ber mark sitt af þeim sem þar búa.  Því hefur það verið okkur mikið lán að fá að njóta krafta fjölskyldunnar í Laufási og fengur að því að bæði Þórarinn og Jón Helgi hafa sest hér að með fjölskyldur sínar.  Sú von okkar er einlæg að Inga geti líka búið með okkur eins lengi og hún óskar. Elsku Inga, Þórarinn, Jón Helgi, Heiða og allt ykkar fólk, foreldrar og systkini Péturs. Íbúar Grýtubakkahrepps votta ykkur innilega samúð sína.  Við þökkum Pétri fyrir allt og vitum að hann tekur vel á móti okkur þegar þar að kemur. 

Guðný Sverrisdóttir