23. desember 2014

Á seinni árum hefur umræðan gjarna verið á þá lund að stærra sé betra.  Opinber krafa hefur lifnað reglulega um sameiningu sveitarfélaga og stofnana.  Þá stuðla auknar kröfur og flóknara regluverk að samþjöppun og stækkun fyrirtækja, hverju verki skal fylgja meiri og meiri skriffinnska.

Þetta er ekki endilega bara slæm þróun en heldur ekki sjálfsagt að hún sé góð.  Ísland er fámenn þjóð og mætti þá eins segja að hagkvæmt og rétt væri að sameinast annarri stærri.  Raunar hafa komið fram hugmyndir um sameiningu við Noreg nýverið en ætli flestir vilji þó ekki sjálfstætt Ísland áfram, þó það kosti stundum að vera lítill.

Í smæðinni er nefnilega falin auðlegð líka ekki síður en kostnaður.  Persónulegt samfélag er meira gefandi, umhyggja og samhugur eru raunveruleg verðmæti þó ekki séu mæld í bókhaldi.  Einmanaleikinn býr ekki síður í stórborgum en í dreifbýli.  Í fámenni reynir meira á hvern einstakling ef allt á að ganga vel.  Ungmenni taka fyrr og meira þátt í samfélaginu, nám verður betur sniðið að þörfum hvers og eins og við sjáum litlu byggðirnar skila sterkum og nýtum einstaklingum sem eru óhræddir við að takast á við áskoranir lífsins.

Grýtubakkahreppur hefur metnað til að standa vörð um þessi gildi, uppeldi í takt við náttúru og samfélag, persónulega þjónustu svo fjölbreytta og góða sem kostur er, verndun, þróun og fegrun umhverfis, gott mannlíf og traust atvinnulíf.  Mikilvægt er að áfram ríki sátt um þessi markmið og framkvæmd þeirra.

Auðvitað er það svo að ekki verður hægt að veita alla þjónustu í svo litlu samfélagi, en þá búum við að þjónustusamningum og nábýli við Akureyri.  Það er því ekki síður mikilvægt að standa vörð um þjónustu þar, s.s. sjúkrahús, framhaldsskóla, háskóla og flugvöll svo eitthvað sé nefnt.

Á þessu ári hefur heldur þrengt að fjárhag Grýtubakkahrepps eins og fleiri sveitarfélaga.  Hann er þó áfram traustur og sveitarstjórn hefur fullan vilja og metnað til að halda áfram uppi góðri þjónustu sem og til áframhaldandi uppbyggingar.  Ber fjárhagsáætlun næstu ára þess merki, en áformað er að hefja byggingu fleiri leiguíbúða, auk ýmissa minni framkvæmda.  Ef færi gefst verður líka hugað að sölu íbúðar eða íbúða, enda ekki markmið í sjálfu sér að fjölga íbúðum í eigu hreppsins, en það er slæmt að húsnæðisskortur hamli búsetuþróun.

Það hefur verið gefandi að koma og ganga til liðs við þetta góða samfélag.  Það er einnig spennandi áskorun að vinna að áframhaldandi framþróun þess.  Við óskum öllum gleðilegra jóla, gæfu og góðs gengis á nýju ári og þökkum hlýjar móttökur og ánægjulega viðkynningu á árinu.

Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri