Sveitarstjórnarfundur nr. 496

19.02.2024 00:00

Sveitarstjórnarfundur nr. 496

Mánudaginn 19. febrúar 2024, kom sveitarstjórn Grýtubakkahrepps saman til fundar á skrifstofu hreppsins að Túngötu 3 á Grenivík. Eftirtaldir sveitarstjórnarfulltrúar voru mættir; Gísli Gunnar Oddgeirsson, Þorgeir Rúnar Finnsson, Fjóla V. Stefánsdóttir, Gunnar B. Pálsson og Inga María Sigurbjörnsdóttir. Einnig sat sveitarstjóri fundinn.

Fundurinn hófst kl. 16:00.

Gjörðir fundarins voru þessar:

  1. Heimsókn frá SSNE, kynning á starfi samtakanna.

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir framkv.stj. SSNE mætti ásamt Elvu Gunnlaugsdóttur verkefnastjóra og kynntu þær starfsemi samtakanna.

  1. Fundargerð stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, dags. 26. jan. 2024.

Fundargerð lögð fram.

  1. Fundargerð Heilbrigðisnefndar Nle., dags. 13. des. 2023.

Fundargerð lögð fram.

  1. Fundargerð stjórnar SSNE, dags. 7. feb. 2024.

Fundargerð lögð fram.

  1. Fundargerð stjórnar Hafnasamlags Norðurlands, dags. 14. feb. 2024.

Fundargerð lögð fram.

  1. Fundargerð 66. afgreiðslufundar SBE, dags. 7. feb. 2024.

Fundargerð lögð fram.

  1. Erindi frá Norðurorku, dags. 12. feb. 2024.

Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að svara erindinu í samræmi við umræður á fundinum.

  1. Frá óbyggðanefnd, þjóðlendumál – eyjar og sker, dags. 12. feb. 2024.

Sveitarstjórn furðar sig á þeirri kröfu að nokkur blindsker undan ströndum Grýtubakkahrepps skuli verða þjóðlendur í eigu ríkisins. Engin leið er að sjá tilganginn og vandséð um nokkra nýtingu skerjanna eða áhrif af þessari gjörð fyrir þjóðina. Sýnist hér um að ræða algerlega tilgangslausa sóun á almannafé við þetta brölt óbyggðanefndar.

Sveitarstjórn leggur því fast að nefndinni að falla frá þeim kröfum sem að Grýtubakkahreppi snúa án frekari málareksturs.

  1. Frá matvælaráðuneyti, regluverk um búfjárbeit, dags. 14. feb. 2024.

Erindi lagt fram.

  1. Frá mennta- og barnamálaráðuneyti, fyrirhuguð úttekt á tónlistarskólum, dags. 8. feb. 2024.

Erindi lagt fram.

  1. Frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, málþing um orkumál, haldið 15. mars 2024.

Erindi lagt fram.

  1. Frá Eim, málþingið Orkuskipti á Norðurlandi, haldið 21. feb. 2024.

Erindi lagt fram.

  1. Mál í samráðsgátt, reglugerð um sjálfbæra landnýtingu, dags. 22. jan. 2024.

Sveitarstjórn samþykkir eftirfarandi umsögn samhljóða:

Fyrst verður að nefna að drög að þessari reglugerð voru áður í samráðsgátt haustið 2021. Fjölmargar umsagnir bárust þá, margar afar gagnrýnar svo ekki sé fastar að orði kveðið. Það verður að lýsa undrun og jafnframt átelja, að þess samráðs sé í litlu getið nú. Ekki kemur fram hvort eða hvernig hefur verið tekið tillit til þeirra fjölmörgu athugasemda sem þá bárust. Því verður hver og einn að leggjast yfir reglugerðina á nýjan leik frá grunni og bera saman við fyrri drög. Virðist inntak reglugerðar vera í litlu breytt og fyrri gagnrýni eiga að miklu leyti við enn.

Ekki kemur annað fram en að reglugerðin eigi við landið allt, þó er vart minnst á þéttbýli eða nýtingu lands undir þróun þéttbýlis.

Reglugerðin er óskýr, hugtök og viðmiðanir umdeilanlegar, jafnvel þó útskýrt sé í löngu máli í fylgiskjali. Þannig kemur viðmið um hæð yfir sjó, sem og viðmið um halla lands, í veg fyrir beit á mörgum afréttum og jafnvel heimalöndum, án gildra raka. Hefbundnar landnytjar s.s. kartöflurækt eru dæmdar óæskilegar, sbr. 7. lið greinar 7. Óbreytt er reglugerðin beinlínis aðför að hefðbundnum landbúnaði sem byggir á nýtingu afrétta, s.s. sauðfjárrækt.

Landi og skógi er einnig falið óeðlilega víðtækt hlutverk. Hlutverk sveitarfélaga og aðkoma er ekki skýr. Gert er ráð fyrir viðamikilli matsvinnu og eftirfylgni án þess að sé getið um hvaða aðilar hafi þar hlutverk, verkið í engu kostnaðarmetið, eða getið um hver á að bera kostnaðinn. Þó sett séu viðmið um beit er ekki minnst á girðingar eða hvernig skuli verja land með öðrum hætti en alfriðun.

Við blasir að drögin eru ekki unnin í miklu samráði við helstu hagsmunaaðila, þrátt fyrir verulega brýningu þar um í fyrra samráðsferli.

Sveitarstjórn Grýtubakkahrepps hvetur til þess að málið verði enn unnið upp á nýtt og þá í nánu samráði við hagsmunaaðila, ekki síst þá sem nýta landið og þekkja það hvað best.

Að öðru leyti er tekið undir gagnrýnar umsagnir annarra sveitarfélaga og Bændasamtaka Íslands.

  1. Erindi frá Hermanni Gunnari Jónssyni og fl., slysavarnir í skriðum Bjarnarfjalls, dags. 8. feb. 2024.

Sveitarstjórn samþykkir að styrkja þetta þjóðþrifaverk um 60.000 kr.- Upphæðin rúmast innan fjárhagsáætlunar.

  1. Málefni Reykjaveitu og húshitunarkostnaður heimila, framhald umræðu.

Sveitarstjóri fór yfir viðbótarútreikninga sem KPMG vann fyrir Grýtubakkahrepp. Sveitarstjórn telur ekki ásættanlega nálgun Norðurorku varðandi gjaldskrármál og fer fram á eftirfarandi breytingar;

  • Nú þegar verði gjaldskrá Reykjaveitu lækkuð þannig að hún verði ekki meira en 50% hærri pr. kWst en hjá aðalveitunni.
  • Frá 1. janúar 2025 verði gjaldskrá Reykjaveitu ekki meira en 40% hærri en aðalveitunnar.
  • Frá 1. janúar 2026 verði gjaldskrá Reykjaveitu ekki meira en 30% hærri en aðalveitunnar.

Sveitarstjóra falið að senda erindi í samræmi við bókunina með frekari rökstuðingi í takt við umræður á fundinum.

Fleira ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt. Fundi slitið kl. 19:26.

Fundargerð ritaði Þorgeir Rúnar Finnsson.