Please update your Flash Player to view content.

Pistillinn

Pistill 7. nóvember 2014

Eitt af því sem gerir þjóð að þjóð er menningararfurinn.  Við erum stolt af afrekum sem unnin hafa verið við misjafnar aðstæður, stundum eftir langan vinnudag við bágan kost.  Á seinni árum með bættum hag, hefur sköpun af ýmsu tagi blómstrað.

Tónlist er mikilvægur hluti þjóðlífs.  Allar þjóðir eiga sér þjóðsöng sem leikinn er á hátíðarstundum, sem fyllir okkur samhug og stolti og blæs íþróttamönnum keppnisanda í brjóst.  Hver getur líka hugsað sér jól án tónlistar?  Þannig er tónlistin samofin lífi okkar frá vöggu til grafar.  Tónlistaruppeldi er mikilvægur partur af þroskaferli barna og skilar þeim hamingjuríkara lífi alla tíð, sumum einnig skemmtilegu lífsstarfi.

Nú hefur verkfall tónlistarkennara staðið um nokkra hríð og þungt fyrir með samninga.  Það er mjög miður að ekki finnist flötur sem báðir samningsaðilar geti sætt sig við og bagalegt það tjón sem nemendur verða fyrir í sínu námi án þess að geta nokkuð að gert.  Þannig fer gjarna í verkföllum að þau bitna á þeim er síst skyldi.

Svo er einnig um annað verkfall sem hefur kannski skyggt nokkuð á verkfall tónlistarkennara að þessu sinni, verkfall lækna.  Ekki var á bætandi eins og staðan er orðin í heilbrigðiskerfinu en þó hygg ég að læknar njóti skilnings í þjóðfélaginu ekki síður en tónlistarkennarar, enda viljum við ekki tapa því heilbrigðiskerfi sem við áttum.

Við gleymum því stundum að framvinda mála er ekki bara háð tilviljunum eða einhverjum utanaðkomandi aðstæðum.  Hún er bein afleiðing af ákvörðunum sem ráðamenn taka.  Því miður vilja þeir ekki alltaf sjá samhengi gjörða sinna í dag við þróun mála til lengri tíma.

Hér skal ekki fjölyrt um hrunið.  Aðeins vil ég þó nefna að það var fullkomlega meðvitað val að klára að byggja Hörpu, að verja fjármálakerfið og innistæður umfram það sem lög og reglur sögðu, að láta skrifa rándýrar skýrslur, en á móti að spara og spara meira í heilbrigðiskerfinu.  Staðan í dag ætti því engum að koma á óvart en hún er þó ekki betri fyrir það.

Ég vil hvetja þá sem nú koma að verkfallsmálum til að setjast að samningaborði og ná niðurstöðu.  Upplýst þjóðfélag á ekki að þurfa verkföll til að ná samningum.  Þeir sem bjóða sig fram til ábyrgðarstarfa verða að standa undir þeirri ábyrgð og finna leiðir sem skila okkur fram á veg.

Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri