Sveitarstjórn

05.01.2009 00:00

Hreppsnefndarfundur nr. 173

Mánudaginn 5. janúar 2009 kom hreppsnefnd Grýtubakkahrepps saman til fundar á skrifstofu Grýtubakkahrepps. Allir hreppsnefndarnenn mættir ásamt sveitarstjóra. Fundurinn hófst kl. 17:00.

Gjörðir fundarins voru þessar:

1. Svæðisskipulag Eyjafjarðar:
Árni Ólafsson arkitekt, Bjarni Kristjánsson og Valtýr Sigurbjarnarson komu á fundinn. Farið var yfir til hvaða þátta æskilegt sé að nýtt svæðisskipulag taki.

2. Fundargerð byggingarnefndar Eyjafjarðar frá 18. desember 2008. 
Í lið 1 eru Jóhanna Daðadóttir og Ármann Ó. Jónsson Kjarnagötu 14, Akureyri að sækja um leyfi til að byggja sumarhús á lóð nr 18 í Sunnuhlíð á Grenivík. Í lið 2 er Bergvin Jóhannsson Áshóli að sækja um leyfi til að flytja hundahótel af jörðinni Nolli og setja niður á jörðinni Áshóli. Fundargerðin lögð fram og framangreindir liðir samþykktir.

3. Fundargerð heilbrigðisnefndar Norðurlandssvæðis eystra frá
3. desember 2008.
Fundargerðin lögð fram.

4. Fundargerð stjórnar Eyþings frá 8. desember 2008.
Fundargerðin lögð fram.

5. Fundargerð búfjáreftirlitsnefndar á svæði 18 frá 4. júní og
26. nóvember 2008.

Fundargerðin lögð fram og fjárhagsáætlun samþykkt.

6. Bréf frá Hestamannafélaginu Þráni dags. 18. desember 2008.
Félagið er að koma á framfæri þakklæti fyrir stuðning sveitarstjórnar við byggingu reiðskemmu félagsins og upplýsa um stöðu mála. Sveitarstjórn óskar félaginu til hamingju með reiðskemmuna og lýsir ánægju sinni með hversu vel var staðið að framkvæmdunum.

7. Bréf frá Útgerðarminjasafninu á Grenivík dags. 19. desember 2008.
Er verið að fara fram á rekstrarsamning um safnið. Samþykkt að gerður verði rekstrarsamningur við Útgerðarminjasafnið.

8. Bréf frá Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands dags.
12. desember 2008.
Fjallar bréfið um áhrif fjármálakreppunnar á EBÍ. Lagt fram.

9. Samningur við Alþjóðahús.
Samningur við Alþjóðahús samþykktur með þeirri breytingu að ekki er fallist á að greiðslur taki breytingum samkvæmt vísitölu byggingarkostnaðar.

10. Erindi frá Stefáni Kristjánssyni, Jónasi Baldurssyni og Guðrúnu Eyvindsdóttur. Efni: Beiðni um að land verði tekið úr landbúnaðarnotkun.
Erindið var ekki á dagskrá fundarins og var leitað afbrigða til að taka málið á dagskrá, sem var samþykkt. Beiðnin er vegna skipulags frístundabyggðar í landi Grýtubakka I og II. Sveitarstjórn samþykkir beiðnina.

Fleira var ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt.
Fundi slitið kl. 19:30.

Fundargerð ritaði Jón Helgi Pétursson.