Sveitarstjórn

03.11.2008 00:00

Hreppsnefndarfundur nr. 167

Mánudaginn 3. nóvember 2008 kom hreppsnefnd Grýtubakkahrepps saman til fundar á skrifstofu Grýtubakkahrepps.  Mættir voru Ásta F. Flosadóttir, Benedikt Sveinsson, Fjóla V. Stefánsdóttir og Jóhann Ingólfsson.  Jón Helgi Pétursson var forfallaður og í hans stað sat Jenný Jóakimsdóttir fundinn. Einnig sat sveitarstjóri fundinn sem hófst kl. 17:00.

Gjörðir fundarins voru þessar:

1. Farið í skoðunarferð í leikskóla.
Rætt við leikskólastjóra um aðstöðuna og starfið í leikskólanum.

2. Fundargerð stjórnar Eyþings frá 15. október 2008.
Lögð fram.

3. Fundargerð Héraðsráðs Eyjafjarðar frá 22. október 2008.
Lögð fram.

4. Bréf frá KSÍ dags. 24. október 2008.
Er verið að kynna aukið  framlag til barna- og unglingastarfs aðildarfélaga sambandsins.  Samþykkt að senda Íþróttafélaginu Magna afrit af þessu bréfi. 

5. Bréf frá forsætisráðuneytinu dags. 21. október 2008.
Bréfið er svar við bréfi þar sem Grýtubakkahreppur fór fram á að forsætisráðuneytið greiddi þann kostnað sem fallið hefur á landeigendur í Grýtubakkahreppi sem hlut eiga að máli, vegna laga um þjóðlendur. Ráðuneytið hafnar erindinu.  Sveitarstjórn getur ekki fallist á rök ráðuneytisins.  Samþykkt að svara bréfinu og ítreka afstöðu landeigenda í Grýtubakkahreppi.

6. Bréf frá Flokkun dags. 20. október 2008.
Er verið að fara fram á aukið hlutafé frá sveitarfélaginu vegna Moltu ehf. Á að bjóða út hlutafé fyrir 50 millj. kr. og yrði þá hlutur Grýtubakkahrepps kr. 591.852,- eða 1,18%.  Sveitarstjórn óskar eftir nánari upplýsingum frá Flokkun og fer fram á að haldinn verði hluthafafundur til að skýra þessa miklu hækkun.

7. Endurskoðun á fjárhagsáætlun Grýtubakkahrepps 2008. Endurskoðun lokið og helstu niðurstöðutölur eru eftirfarandi:
   Í þús kr.                          A hluti               Samstæða
   Tekjur                             229.399             264.030
   Gjöld                               227.728             259.888
   Fjármagnsliðir                   2.217              -16.695
   Rekstrarniðurstaða          3.888              -12.554
   Fjárfestingar                    15.250               15.250

Endurskoðuð fjárhagsáætlun samþykkt.

8. Forsendur fjárhagsáætlunar Grýtubakkahrepps 2009.
Farið yfir forsendur fjárhagsáætlunar 2009.  Ljóst er að erfitt er að gera sér grein fyrir hvernig þessar forsendur verða, sérstaklega hvað varðar tekjuhlið sveitarfélaganna. 

9. Þjóðfélagsmál.
Rætt vítt og breitt um stöðuna í þjóðfélaginu og áhrif sem gætu komið fram í Grýtubakkahreppi. 

10. Bréf frá Svæðisvinnumiðlun Norðurlands eystra dags. 29. október 2008.
Í bréfinu er ályktun frá Vinnumarkaðsráði Vinnumálastofnunar Norðurlandi eystra. Lagt fram.

11. Bréf frá Neytendasamtökunum dags. 29. október 2008.
Í bréfinu er  beiðni um styrk að kr. 6.426 vegna ársins 2009.  Samþykkt að veita umbeðinn styrk.

Fundargerð lesin upp og samþykkt, fundi slitið kl. 19:50
Ásta F. Flosadóttir ritaði fundargerð.