Sveitarstjórn

03.10.2005 00:00

Mánudaginn 3. október 2005 kom hreppsnefnd Grýtubakkahrepps saman til fundar á skrifstofu Grýtubakkahrepps.  Allir hreppsnefndarmenn mættir ásamt sveitarstjóra.  Fundurinn hófst kl. 17,00.

Gjörðir fundarins voru þessar:

1. Kjörskrá í Grýtubakkahreppi fyrir sameiningarkosningarnar 8. október 2005. 
Kjörskráin lögð fram og samþykkt.

2. Bréf frá Þuríði Guðmundsdóttur dags. 5. september 2005, smb. 5. lið í fundargerð hreppsnefndar nr. 101.  Sveitarstjóra falið að gera drög að leigusamningi við Þuríði.

3. Gjaldskrá líkamsræktarstöðvar. 
Samþykkt að gjaldskrá fyrir líkamsræktarstöð verði sem hér segir:
* Stakir tímar kr. 500-.
* 10 tíma kort kr. 3.500-.
* Mánaðarkort kr. 4.000-.
* Þriggja mánaða kort kr. 8.000-.
* Árskort kr. 20.000-.
* Hjónakort (árskort) kr. 30.000-.
* Frítt fyrir ellilífeyrisþega og öryrkja.

4. Málefni Sunnuhvols. 
Samþykkt að sækja um til Landbúnaðarráðuneytis að Sunnuhvolsland verði leyst úr landbúnaðarnotkun sbr. 6. gr. Laga nr. 81/2004, Jarðarlaga.

5. Bréf frá Guðnýju Sverrisdóttur dags. 29. september 2005. 
Er Guðný að fara fram á styrk að upphæð kr. 150.000,- vegna stjórnunarnáms við Háskólann á Akureyri.  Einnig fer hún fram á að sá vinnutími sem skarast við námið verði ekki reiknaður sem sumarfrí.  Erindið samþykkt.  Guðný og Jóhann véku af fundi meðan þessi liður var ræddur.

6. Sameining sveitarfélaga. 
Sveitarstjórn lýsir yfir áhyggjum sínum af skömmum tíma sem ætlaður er til utankjörfundaratkvæðagreiðslu í síðari kosningu um sameiningu sveitarfélaga, komi til hennar á annað borð.  Í því sambandi er vísað til bókunar sveitarstjórnar frá 26. maí sl., 1. töluliðar.

7. Fundargerð byggingarnefndar Eyjafjarðar frá 6. september sl.
Í lið 1 er Jóhann Skírnisson f.h. Skarðs Dalsmynni ehf. að sækja um leyfi til að byggja gangnamannaskýli við útburðartjörn í landi Skarðs.  Fundargerðin lögð fram og 1. töluliður hennar samþykktur.

8. Samningur við Landssíma Íslands. 
Lögð fram drög að samningi um fjarskiptaþjónustu milli Grýtubakkahrepps og Landssíma Íslands.  Sveitarstjóra falið að undirrita samninginn.

9. Fundargerð stjórnar Eyþings frá 13. september sl. 
Lagt fram.

10. Bréf frá Félagi sjávarjarðeigenda v/austanverðan Eyjafjörð dags.  5. september 2005. 
Er félagið að fara fram á að Grýtubakkahreppur greiði 1/5 af lögfræðikostnaði félagsins að upphæð
kr. 208.662,-.  Var kostnaðurinn til kominn vegna vinnu við að hnekkja banni við netaveiði göngusilungs í sjó sem Veiðimálastjóri setti á fyrirvaralaust í apríl 2004.  Samþykkt að verða við beiðninni, þar sem um hagsmuni nokkurs fjölda jarða í sveitarfélaginu er að ræða, þ.a. nokkurra í eigu Grýtubakkahrepps.

11. Bréf frá Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar dags. 23. ágúst 2005.
Er verið að sækja um 15% hækkun að framlagi sveitarfélaganna frá og með næstu áramótum.  Er það tilkomið vegna aukinnar vinnu við vaxtasamning Eyjafjarðar.  Erindið samþykkt.

12. Reglur fyrir þá sem leigja íþróttahús og samkomuaðstöðu.
Drög að reglum lagðar fram.  Sveitarstjóra falið að fullvinna drögin.

13. Bréf frá sóknarnefnd Laufás- og Grenivíkursóknar dags. 19. september 2005. 
Sóknarnefnd er sammála tillögu frá VST frá 18. okt. 2004 um lóð fyrir Grenivíkurkirkju.  Sveitarstjóra falið að gera lóðarleigusamning skv. tillögu VST.

14. Félagsmiðstöð o.fl. 
Farið yfir starf Félagsmiðstöðvarinnar Gryfjunnar í vetur.  Sveitarstjóra falið að skipuleggja starf með Önnu Sigríði Jökulsdóttur varðandi félagsmiðstöð o.fl.

15. Leikskólagjöld. 
Rætt um leikskólagjöld og mögulega samræmingu á leikskólagjöldum við Akureyrarbæ.  Samræming á gjaldskrá myndi þýða lækkun á leikskólagjöldum fyrir ákveðinn hóp en hækkun fyrir aðra.  Samþykkt að fela sveitarstjóra að gera ítarlegan samanburð á gjaldskránum.

16. Reykjaveita. 
Sveitarstjórn samþykkir að leggja fram hlutafé í Norðurorku hf. til að standa straum af hluta af auknum kostnaði við lagningu hitaveitu frá Reykjum að Illugastöðum sem til kemur vegna aukins sverleika á stofnæð svo mögulegt sé að leggja hitaveitu í Grýtubakkahreppi frá Reykjum.

17. Umsókn um samþykki lóðar frá Helga Snæbjörnssyni. 
Lóðin er í landi Grundar í Grýtubakkahreppi.  Samþykkt að vísa umsókninni til Skipulagsstofnunar.

18. Önnur mál.
Engin.

Fleira var ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt.
Fundi slitið kl. 19:35.