Atvinnu- og þróunarnefnd

25.05.2011 00:00

7. fundur atvinnu- og þróunarnefndar Grýtubakkahrepps, haldinn í Gamla skólanum 25. maí 2011.
Fundurinn hófst kl. 17:00.
Mættir voru: Sigurður, Guðni, Oddný, Bára, Birna, Valgerður og Guðný sveitarstjóri.

1. Fundargerðir tveggja síðustu funda samþykktar.

2. Upplýsingamiðstöð og ferðamál almennt.
Ásbjörn Björgvinsson forstöðumaður Markaðsstofu ferðamála á Norðurlandi mætti á fundinn.
Ákveðið að nýta kort af skaganum (Gjögraskaga) sem til er hjá hreppnum. Kortið verði stækkað og færðir inn á það athyglisverðir staðir og afþreyingarkostir fyrir ferðafólk. Samið hefur verið við Jónsabúð um að hýsa upplýsingamiðstöð fyrir ferðafólk og verði hún í veitingasölunni. Þar verði kortinu komið fyrir ásamt rekka fyrir bæklinga og fleira sem tilheyrir upplýsingamiðstöð.

Fram kom hjá Ásbirni að 17. september verði frumsýnd í Bandaríkjunum vetraríþróttamyndin sem m.a. var tekin í Kaldbaknum af ofurhugum. Við munum eiga rétt á notkun efnis úr myndinni okkur að kostnaðarlausu eftir það.

Einnig benti Ásbjörn á möguleika í ferðamennsku sem tengjast fuglaskoðun. Sérstaklega var talað um Bárðartjörnina í því sambandi og votlendið þar í kring. Nefnt var fuglaskoðunarhús, uppsetning skilta sem m.a. bentu fólki á að fara varlega á svæðinu. Fram kom að heimamenn hafa skemmt sér við að dóla á hljóðlátum bát um svæðið og látið vel af. Mál manna er að fuglalíf hafi eflst í sveitarfélaginu og er það þakkað því að mink hefur verið útrýmt.

Rætt um skilti við Víkurskarð og þar sem keyrt er inn í þorpið. Ákveðið sem fyrsta skref að koma slíkum skiltum upp en síðar mætti hugsa sér skilti uppi á Víkurskarði við planið og jafnvel við Háls í Fnjóskadal.

Ásbjörn sagði frá vaxandi áhuga ferðamanna á að heimsækja bændur og þá væri boðið upp á „local food". Einnig greindi hann frá veitingastað sem hann hafði heimsótt á Ítalíu sem eingöngu biði upp á rétti úr kartöflum.

Verið er að stofna klasa hér fyrir norðan um vetrarferðamennsku. Skoðun manna er að of mikið hafi verið lagt upp úr að sýna Ísland í sumarbúningi.

Sveitarstjóri sagði frá því að haldinn hafði verið fundur með handverksfólki og hafði mæting verið góð. Ákveðið er að opna handverkssölu og vinnustofu á Miðgörðum 18. júní. 10 aðilar standa að því.

Sveitarstjóri sagði einnig frá endurbótum á tjaldsvæði. Byggt hefur verið nýtt þjónustuhús sem komið hefur verið fyrir á svæðinu.

Fram kom hugmynd um að gerður yrði púttvöllur miðsvæðis á Grenivík, sem væri ekki kostnaðarsamt. Málinu beint til stjórnar golfklúbbsins.

Áhugi kom fram á fundinum á að vegurinn í Fjörður yrði opnaður fyrr á vorin (sumrin).

Einnig kom fram hugmynd um að bæta aðgengi að Nöfunum, vestast á Grenivík. Þar væri jarðfræði áhugaverð ásamt fuglalífi.

Sveitarstjóri greindi frá því að stæði til að gera samstarfssamning  við Sænes um að vinna að ímyndarvinnu fyrir hreppinn. Samið yrði við fyrirtækið Blek mörkun og miðlun um að vinna verkið. Til grundvallar liggur sú spurning hvernig hægt sé að fjölga íbúum.

Þá eru uppi hugmyndir hjá sveitarstjórn um að gera upplýstan göngustíg meðfram grjótvörninni við fjöruna.