Jólin í Gamla bænum í Laufási

04. des
kl. 13:30

Jólaandinn svífur yfir Gamla bænum í Laufási sunnudaginn 4. desember. Þar verður ilmur af hlóðum og hangikjöti í bland. Óviðjafnanleg jólastemning myndast í þessum gamla torfbæ sem Laufás er.
Það verður notalegt í Laufáskirkju þar sem dagurinn byrjar í hinni rúmlega 150 ára gömlu kirkju kl. 13:30. Sr. Bolli Pétur Bollason flytur aðventuhugvekju og Stúlknakór Akureyrarkirkju syngur jólalög. Eftir það verður heimilisfólk við vinnu í Laufásbænum að undirbúa jólin 1916, kveður, segir sögur, skreytir jólatré, sker út laufabrauð, býr til kerti og margt fleira. Fer það í bað?
Á skrifstofu prestsins á baðstofuloftinu situr prestur við skriftir. Ætli hann sé að semja jólasálm? Heimilisfólkið á baðstofuloftinu lætur sér fátt um finnast enda upptekið af því að skera út laufabrauð. Ætli ilmurinn af hljóðum, laufabrauðinu eða hangikjötinu dragi ekki að sér jólasveina? Hvaða jólasveinn verður á vappi um bæinn?
Í Gestastofu Laufáss verður ljúffengt kakó, kaffi og lummur til sölu. Það fara allir heim úr Laufási með jólaandann í brjósti og bros á vör.