Ný lög um húsnæðisbætur

Athygli er vakin á nýjum lögum um húsnæðisbætur sem taka gildi um áramótin.  Húsnæðisbætur  koma í staðinn fyrir húsaleigubætur sem sveitarfélög hafa greitt út.

Ríkið mun greiða út húsnæðisbætur og verður það gert hjá Greiðslustofu húsnæðisbóta sem staðsett er að Ártorgi 1 á Sauðárkróki, en greiðslustofan er undirdeild hjá Vinnumálastofnun.

Sveitarfélög munu þó áfram greiða húsnæðisbætur til ungmenna í námi fram að 18 ára aldri, sem og sérstakar húsnæðisbætur eftir reglum sem þau munu setja sér.

Leigjendum er hér með bent á að huga sem fyrst að því að sækja um húsnæðisbætur, en það er gert á heimasíðu Greiðslustofu húsnæðisbóta, www.husbot.is.  Þegar er farið að taka við umsóknum, en húsnæðisbætur verða greiddar út í fyrsta skipti um mánaðarmót janúar/febrúar. 

Til að sækja um húsnæðisbætur þarf að hafa rafræn skilríki eða Íslykil.  Þeir sem hafa ekki slík skilríki nú þegar ættu því ekki að bíða boðanna með að sækja um þau.

Ungmennum innan 18 ára aldurs er bent á að sækja áfram um húsnæðisbætur til sveitarfélagsins, en í þeim mánuði sem 18 ára aldri er náð, tekur greiðslustofan við.  Þau þurfa því að huga að því að sækja þangað tímanlega fyrir 18 ára afmælið.

Skrifstofa sveitarfélagsins mun verða leigjendum innan handar í samskiptum við Greiðslustofu húsnæðisbóta meðan þessar breytingar eru að ganga yfir.  Reikna má með miklu álagi hjá greiðslustofunni til að byrja með og því vissara að vera tímanlega á ferðinni að sækja um.